Forstjóri Wyndeham Press Group, fyrirtækis í eigu Dagsbrúnar, er áhrifamesti maðurinn í breskum prentiðnaði, samkvæmt árlegri úttekt PrintWeek, bresks fagrits í prentiðnaði.

Forstjórinn, Paul Utting er fertugur og var ráðinn forstjóri Wyndeham 1. apríl 2005. Áður hafði hann starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og sölu- og markaðsstjóri hjá St. Ives sem er næst stærsta prentfyrirtæki Bretlands. Meginrökstuðningur blaðsins fyrir valinu felst í því að kraftur fyrirtækisins í samrunum og yfirtökum hafi verið mikill, auk þess sem það hafi skilað góðum rekstrarárangri. Tveir aðrir stjórnendur Wyndeham voru meðal 100 árhrifamestu mannana á listanum, þeir Bryan Bedson fyrrum forstjóri og Jon Hearnde sölustjóri.

Breskur prentiðnaður veltir 13 milljörðum punda á síðasta ári eða um 1.816 milljörðum íslenskra króna, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá Dagsbrún. Samkvæmt spá markaðsrannsóknarfyrirtækisins Marketresearch.com mun markaður fyrir prentun á Bretlandseyjum stækka um 2,1% á þessu ári. Dagsbrún keypti Wyndeham Press Group, þriðja stærsta prentfyrirtæki Bretlands, í mars síðastliðnum og hefur yfirtakan verið samþykkt af breskum samkeppnisyfirvöldum.