Marissa Mayer, forstjóri Yahoo, og eiginmaður hennar Zachary Bogue, eignuðust son í gær. Drengurinn er frumburður þeirra hjóna. Marissa er 37 ára gömul en hún tilkynnti að hún ætti von á barni á sama tíma og hún tók við forstjórastöðunni nú í sumar. Hún ætlar að taka nokkurra vikna fæðingarorlof en segist ekki vilja vera lengi frá störfum.

Tilkynningin vakti á sínum tíma töluverð viðbrögð í Bandaríkjunum en Marissa sagði á dögunum í viðtali við Fortune tímaritið að stjórnarmenn Yahoo hefðu ekki haft áhyggjur af samtvinnun starfs og fjölskyldulífs. Hún sagðist hafa greint frá óléttunni í ráðningarferlinu og hefðu stjórnarmenn Yahoo ekki kippt sér upp við það. „Það sýnir þroskað viðhorf stjórnendanna,“ sagði hún í viðtalinu.

Marissa var í hópi fyrstu starfsmanna Google og vann þar í fjórtán ár áður en hún tók við starfinu hjá Yahoo. Þetta kemur fram á vef CNN. Eiginmaður hennar Zachary er lögfræðingur og stofnaði á dögunum fjárfestingafyrirtækið Data Collective sem ætlað er að fjárfesta í frumkvöðlafyrirtækjum í tæknigreinum.