Marissa Mayer, forstjóri bandaríska netrisans Yahoo, hefur sparkað Henrique de Castro. Þetta var annar valdamesti maðurinn innan tæknifyrirtækisins. Erlendir fjölmiðlar segja málið athyglisvert fyrir þær sakir að Mayer fékk hann til að koma með sér yfir til Yahoo þegar þau unnu bæði hjá Google.

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir um málið á vef sínum að sparkið hafi komið á óvart en ljóst að Castro hafi ekki uppfyllt væntingar Mayer. Því til staðfestingar sé ekkert komið inn á störf hans í tilkynningu um starfslokin, hvað þá að hann hafi ákveðið að hverfa á braut af persónulegum ástæðum eins og stundum sé gert.

Mayer hefur ætlað sér stóra hluti hjá Yahoo síðan hún settist þar í forstjórastólinn í júlí árið 2012. Það hefur ekki alveg gengið eftir en dregið hefur úr markaðshlutdeild fyrirtækisins á netauglýsingamarkaði, einni af helstu tekjustoðum Yahoo, upp á síðkastið.