Mark Pincus, forstjóri og stofnandi netleikjafyrirtækisins Zynga, ætlar að stíga upp úr forstjórastólnum á mánudag í næstu viku. Við starfi hans tekur Don Mattrick, framkvæmdastjóri Xbox-deildar hugbúnaðarrisans Microsoft. Pincus verður þess í stað stjórnarformaður Zynga og aðalleikjahönnuður fyrirtækisins.

Fjallað er um málið á vef bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal . Þar er m.a. tæpt á því hversu illa Zynga hefur gengið á hlutabréfamarkaði frá því hlutabréf þess voru tekin til viðskipta í desember árið 2011. Gengi þeirra hefur hrunið um heil 70% síðan þá. Þá er fjárhagsstaða fyrirtækisins ekki með besta móti, tekjur ekki verið í takt við væntingar og var tilkynnt í síðasta mánuði að 18% af starfsliði fyrirtækisins verði sagt upp.

Zynga á nokkra af þekktustu netleikjum heims. Þar á meðal eru Farmville og álíka leikir.