Kanadíski farsímaframleiðandinn BlackBerry tapaði 423 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Afkoman fyrirtækisins hefur hríðversnað á milli ára en tekjur drógust saman um 64% á milli ára. Sala á farsímum dróst mikið saman.

Fram kemur í uppgjöri BlackBerry að tekjur fyrirtækisins námu 976 milljónum dala á fjórðungnum borið saman við 2,7 milljarða á sama fjórðungi árið 2012. Fyrirtækið seldi 1,3 milljónir farsíma á fjórðungnum borið saman við 1,9 milljónir tækja á fjórða ársfjórðungi árið 2012.

John Chen, forstjóri BlackBerry, sem tók við stýrinu hjá fyrirtækinu í nóvember í fyrra segist þrátt fyrir þetta bjartsýnn á horfurnar enda hafi verið tekið til í rekstrinum og hagrætt. BlackBerry sé stöndugra nú en þegar hann tók við, að sögn Chen.

AFP-fréttastofan segir fjárfesta hafa tekið vel í uppgjör BlackBerry. Gengi bréfa í fyrirtækinu hækkaði um 5,5% í morgun. Hækkunin gufaði hins vegar upp þegar leið á daginn. Gengi bréfa BlackBerry stendur nú í 9,02 dölum á hlut borið saman við 14,4 dali á hlut fyrir ári.