Hlutabréf í Microsoft hækkuðu um 9% þegar fréttist að forstjóri fyrirtækisins, Steve Ballmer, myndi hætta á næstu 12 mánuðum. Sérstök nefnd hefur verið skipuð til að finna arftaka Ballmer. Í nefndinni situr meðal annars Bill Gates, stofnandi Microsoft. Þetta kemur fram á vef BBC.

Ballmer og Gates kynntust þegar þeir stunduðu nám í Harvard háskóla árið 1973 en Ballmer hóf störf hjá Microsoft árið 1980. Árið 2000 tók hann við sem forstjóri fyrirtækisins. Hlutabréf hrundu í verði næstu mánuðina eftir að Ballmer var ráðinn og eru um 40% lægri í dag en í janúar árið 2000. Microsoft hefur meðal annars verið mikið gagnrýnt fyrir litlar framfarir á farsímamarkaði sem þróast hratt.