Anko van der Werff forstjóri SAS gagnrýnir flugmenn félagsins sem hafa boðað til verkfalls þann 29. júní.

Í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í morgun segir forstjórinn að þeir 1.000 dönsku, norsku og sænsku flugmenn sem hafa boðað til verkfalls séu að setja framtíð félagsins í hættu.

Auk flugmannanna hafa flugvirkjar boðað til samúðarverkfalls með flugmönnum sem mun að öllu óbreyttu hefjast þann 5. júlí.

Tengist dótturfélögunum tveimur

Ástæða boðunar verkfalls flugmanna er að stjórnendur SAS hafa boðið flugmönnum önnur kjör í dótturfélögunum SAS Connect og SAS Link til að draga úr kostnaði. Verkalýðsfélög flugmanna eru afar ósátt við þetta, vilja að starfsaldur gildi við endurráðningar og sömu kjör gildi hjá dótturfélögunum og hjá SAS sjálfu.

Sjá einnig: Hlutbréf SAS þau mest skortseldu á Norðurlöndunum

Hlutabréf SAS hafa lækkað um 3,66% en líklegt er að markaðurinn túlki viðtal forstjórans á þann veg að hvorki gangi né reki í samningaviðræðum við flugmenn.