Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segist í samtali við Við- skiptablaðið vera ósáttur við frétt sem Viðskiptablaðið birti fyrir viku. Þar var fjallað um raforkuframleiðslu og sölu Orkuveitu Reykjavíkur. Í fréttinni var greint frá því að Norðurál hefði í fyrra keypt 77% þeirrar orku sem virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur framleiddu. Jafnframt var sagt frá því að í skýringu í ársreikningi OR-samstæðunnar kæmi fram að Norðurál hefði í fyrra keypt raforku fyrir 4,9 milljarða króna. Samkvæmt ársreikningi Orku náttúrunnar (ON), sem er dótturfélag OR, námu tekjur af raforkusölu 12 milljörðum króna í fyrra. Greiðslur Norðuráls stóðu því undir 41% af tekjum ON af raforkusölu. „Um 23% af raforkuframleiðslunni eru því seld í smásölu, þ.e. til heimila og minni fyrirtækja, en þessi litli hluti stendur aftur á móti undir 59% tekna fyrirtækisins af raforkusölu,“ sagði í fréttinni.

Ragnar segir þessa framsetningu villandi. „Annars vegar er verið að fjalla um kaup á raforku frá virkjunum OR og hins vegar er sú tala sett í samhengi við heildartekjur af raforkusölu. Það er ekki rökréttur samanburður því í heildartekjunum er einnig sala á orku sem OR kaupir til viðbótar við sína framleiðslu. Að mínu mati ætti að setja þetta í samhengi við sölu OR á orku frá þeirra eigin virkjunum og þá hækkar þetta hlutfall allverulega.“

Má ekki gefa upp nákvæma tölu

Í ársreikningi ON kemur fram að tekjur af raforkusölu frá jarð- varmavirkjunum félagsins hafi numið 8,8 milljörðum króna. 4,9 milljarða raforkukaup Norðuráls stóðu því undir 56% af þessum tekjum. „Þar að auki er misræmi í ársreikningunum,“ segir Ragnar. „Á einum stað segir að tekjur af sölu raforku til Norðuráls hafi numið 6 milljörðum og á öðrum stað 4,9. Þetta kann að skýrast af því að Norðurál er að kaupa rafmagn undir fleiri en einum samningi og hluti er keyptur með óbeinum hætti í gegnum Landsvirkjun. Samkvæmt okkar bókhaldi er talan hærri en sex milljarðar.“ Spurður hvað Norðurál hafi þá greitt í fyrra svarar Ragnar: „Ég má ekki gefa upp nákvæma tölu.“

Í frétt Viðskiptablaðsins fyrir viku var greint frá því að á næstu sex árum hyggist Orkuveita Reykjavíkur verja 25 milljörðum króna í framkvæmdir svo hægt sé að keyra Hellisheið- arvirkjun á fullum afköstum. Í fyrra nam kostnaður ON við við- hald um 1,3 milljörðum króna. Talan var svipuð árið 2014. Ef viðhaldskostnaður verður svipaður næstu ár má gera ráð fyrir því að á sex árum muni ON verja 7,9 milljörðum í viðhald. Samtals eru þetta 32,9 milljarðar á sex árum, sem er lægri fjárhæð en félagið fær frá Norðuráli á sama tímabili ef tekjur frá fyrirtækinu verða svipaðar og í fyrra. „Ástæðan fyrir því að þetta er sett í þetta samhengi er að framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma var hraðað mjög vegna samnings við Norðurál,“ sagði í frétt blaðsins fyrir viku. „Sú ákvörðun að byggja virkjunina á skömmum tíma hafði aukinn kostnað í för með sér og, eins og komið hefur í ljós, olli því að jarðhitasvæðið var ekki kannað nægilega vel. Þetta kemur fram í skýrslu úttektarnefndar um Orkuveitu Reykjavíkur.“

Ekki sanngjarnt

„Mér finnst ekki sanngjarnt að setja þetta í þetta samhengi,“ segir Ragnar. „Eftir hrun stóð OR illa og var því öllum fjárfestingum frestað ef þess var kostur. Það þýðir að hjá fyrirtækinu hefur myndast uppsöfnuð þörf sem verið er að fara að vinna upp á næstu árum. Að beintengja skammtímatekjur frá Norðuráli við langtímafjárfestingar OR finnst mér því ekki rétt.“

Í  samtali  við  mbl.is  fyrir  viku  sagði   Bjarni Bjarnason,   forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að í grunnatriðum  væri  frétt  Viðskiptablaðsins rétt. Viðskiptablaðið stendur við fréttina sem birtist fyrir viku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.