Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Klæðningar, er hættur störfum eftir mikil átök um fyrirtækið fyrir síðustu helgi.

Þar með var komið í veg fyrir yfirtöku hans á félaginu og sameiningu þess við byggingarfyrirtækið Ris.

Sigþór, sem er enn hluthafi í fyrirtækinu, hafði sagt upp störfum um miðjan ágúst í þeirri von að eignarhaldið breyttist.

Hugmynd Sigþórs og annarra sem með honum voru var að hann keypti út aðra hluthafa. Það ferli var langt komið, að sögn Sigþórs, þegar upp úr slitnaði um helgina.

Einnig var hugmyndin að sameina Klæðningu og byggingarfyrirtækið Ris í eitt stórt og fjölhæft verktakafyrirtæki. Var þannig ætlunin að mynda þriðja stóra verktakarisann á móti ÍAV og Ístaki.

Sigþór segir að búið hafi verið að handsala kaup hans á meirihluta í fyrirtækinu og að á föstudag hafi legið fyrir að ganga frá samruna við Ris. Það gekk hins vegar ekki eftir þegar á reyndi, heldur endaði með því að Sigþór hvarf á braut.

„Þessi tilraun til að búa til þriðja aflið á markaðnum gekk ekki upp,“ sagði Sigþór í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .