Justin Zhu, forstjóri bandaríska markaðsfyrirtækisins Iterable sem er metið á tvo milljarða dala, var rekinn á dögunum eftir að hafa neytt smáskammts (e.microdose) af ofskynjunarlyfinu LSD á vinnustaðnum.

Zhu sagði við Bloomberg að LSD skammturinn hafi verið tilraun til að bæta einbeitinguna sína. Zhu, sem starfaði áður hjá Google og Twitter, stofnaði sprotafyrirtækið árið 2013 ásamt Andrew Boni.

Hegðunin „gróf undan trausti stjórnarinnar á getu Justin til að leiða fyrirtækið áfram,“ skrifaði Boni í bréfi til starfsmanna. Hann lýsti Zhu þó sem „heimsklassa frumkvöðli og hugvitsmanni“ og að „sýn, sköpunargáfa og ástríða hans væri enn lykilhluti af menningunni“ hjá Iterable.

Ofskynjunarlyf líkt og LSD hafa notið aukinna vinsælda að undanförnu, meðal annars í Kísildalnum. Í umfjöllun Bloomberg er minnst á Steve Jobs, meðstofnandi og fyrrum forstjóri Apple, hafi sagt í ævisögu sinni að neysla hans á LSD hafi verið eitt það mikilvægasta sem hann gerði á ævinni.