Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK ohf, segir í yfirlýsingu að ekki verði farið í neinar rannsóknir í Grændal í Ölfusi fyrr en vinnu við Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma lýkur. Unnið er að þeirri áætlun en ekki liggur fyrir hvenær hún verður tilbúin til umræðu og samþykktar á Alþingi.

Í bréfi Tryggva kemur fram að þann 10. maí síðastliðinn veitti Orkustofnun Sunnlenskri Orku ehf. rannsóknarleyfi sem nær til jarðhita, grunnvatns o.fl. í Grændal í Ölfusi.  Sunnlensk Orka ehf. er 100% í eigu RARIK ohf. og þar með í fullri eigu íslenska ríkisins.

„Um þetta rannsóknarleyfi hafa spunnist allmiklar umræður sem m.a. hafa tengst vinnu við Rammaáætlun.  Af þessu tilefni lýsir RARIK því yfir að ekki verður farið í neinar rannsóknir á svæðinu fyrr en vinnu við Rammaáætlun er lokið.  Hefur Orkustofnun samþykkt það," segir í yfirlýsingu Tryggva sem send var fjölmiðlum.

Landvernd mótmælti

Stjórn Landverndar harmaði í yfirlýsingu í gær þá ákvörðun Orkustofnunar að veita leyfi fyrir sitt leyti til borana í Grændal í Ölfusi í tengslum við jarðhitarannsóknir. Grændalur sé svæði með verndargildi á heimsvísu að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands sem verðskuldi hámarks vernd.

„Stjórn Landverndar undrast að stjórnvöld, undir forystu Orkustofnunar, séu reiðubúin til að fórna slíku svæði fyrir fyrirhugaða 10 MW virkjun í mynni Grændals, þvert á afstöðu sveitarfélagsins Ölfuss, Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytisins," sagði í yfirlýsingu stjórnar Landverndar.