Sigurður Viðarsson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar (TM), átti við lok síðasta árs 3,4 mlljónir hluta í félaginu. Virði eignarhlutar hans gæti numið á bilinu 60 milljónir króna til rétt rúmra 68 milljóna, ef miðað er við hæsta og lægsta útboðsgengi í almennu hlutafjárútboði dagana 22. til 24. apríl næstkomandi. Í útboðinu selja Stoðir 29% af hlut sínum í tryggingafélaginu. Lægsta útboðsgengið er 17,75 krónur á hlut og það hæsta 20,1 króna.

Stefnt er að skráningu TM á markað 8. maí næstkomandi. Fram kemur í lýsingu TM sem birt var í dag að Sigurður á hlutinn í gegnum félag í hans eigu.

Þá kemur sömuleiðis fram í lýsingunni að fimm stjórnendur TM eiga samtals rétt tæpa þrjár milljónir hluta í TM. Þeir eru nánar tiltekið 2.994.000 talsins. Ætla má að virði þeirra miðað við hæsta og lægsta verð í útboðinu hlaupi frá 53 til rétt rúmra 60 milljóna.

Fjallað er um hlutafjárútboð TM í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.