Forseti bankastjórnar Seðlabanka Bandaríkjanna í New York, Tim Guthner, hefur sagt forstjórum stærstu fjárfestingabanka þarlendis að ef þeir hjálpist ekki að við að finna lausn á málum Lehman Brothers, verði þeirra eigin bankar næstu fórnarlömb lausafjárkreppunnar. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson og forstjóri Fjármálaeftirlitsins þar í landi styðja þennan málflutnins Guthner. Wall Street Journal segir frá þessu.

Henry Paulson hefur lagt áherslu á að fjármunir skattborgara verði ekki notaðir til að bjarga Lehman Brothers, sem var allt þar til vandræði bankans hófust, fjórði stærsti fjárfestingabanki Bandaríkjanna. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur tekið undir þessa skoðun – óráðlegt væri að nota skattpeninga til að bjarga bankanum, en um 25.000 starfa hjá Lehman Brothers víða um heim.

Í Wall Street Journal segir að tvær lausnir komi forsvarsmönnum bankanna til hugar – annars vegar að leysa upp bankann og selja eignir, eða að bankar taki höndum saman og útvegi fjármagn til að losa Lehman undan skuldbindingum tengdum undirmálslánum.

Forstjórar fjárfestingabankanna Goldman Sachs, Merrill Lynch, JPMorgan og Citigroup voru allir á fundinum um helgina. Reuters segir frá því að sá fundur hafi að miklu leyti minnt á sambærilegan fund sem fór fram fyrir um það bil áratug, þegar Wall Street bjargaði vogunarsjóðnum Long Term Capital Management.

Í dag er þó um aðrar aðstæður að ræða. Í fyrsta lagi þjást allir bankar af lausafjárskorti, og er því síður aflögufærir til að fara út í björgunaraðgerðir sem þessar. Einnig er Lehman Brothers beinn keppinautur þeirra allra, ólíkt LCTM sem var vogunarsjóður.