Félag forstöðumanna ríkisstofnana telur að nýleg ákvörðun velferðarráðherra um hækkun launa forstjóra LHS vegna læknisverka sé til marks um meingallað fyrirkomulag launaákvarðana forstöðumanna ríkisstofnana, sem samkvæmt lögum er í höndum kjararáðs.

Í tilkynningu frá félaginu segir að undanfarin ár hafi verið gerðar ómálefnalegar breytingar á lögum um kjararáð sem hafi aukið ósamræmi í launum þeirra sem undir ráðið heyra og dregið úr samkeppnishæfni ríkisins sem vinnuveitanda.

Félag forstöðumanna ríkisstofnana ítrekar kröfur sínar um afturköllun breytinganna og krefst vandaðri vinnubragða kjararáðs við ákvörðun launa og starfskjara forstöðumanna.

„Til marks um ófagleg vinnubrögð má benda á misræmi í launum fyrir störf forstöðumanna með tilliti til þess hvort þau séu hluti af aðalstarfi þeirra eða ekki, samanber t.d. úrskurði ráðsins um laun og starfskjör útvarpsstjóra og forstjóra Landspítalans frá 23. febrúar 2010. Það samrýmist ekki lögum að slíkt misræmi sé látið viðgangast, og það árum saman,“ segir í tilkynningunni.