Forstöðumenn ríkisstofnana hafa ákveðið að höfða mál gegn kjararáði. Félag fostöðumanna ríkisins telur að kjararáð hafi brotið lög með því að hafa dregið afturköllun launalækkunar í tíu mánuði, eða frá 1. Desember 2010 til 1. Október 2011. „Það er mikil samstaða í hópnum. Við viljum einfaldlega að farið sé að lögum í landinu,“ segir Magnús Guðmundsson, formaður félagsins við Morgunblaðið í dag.

Eftir bankahrun haustið 2008 voru sett lög um tímabundna launalækkun í tvö ár. Félagið telur að að þeim tíma liðnum hafi kjararáði borið að endurskoða starfskjör forstöðumanna til samræmis við kjör þeirra sem gegna sambærilegum störfum í þjóðfélaginu.

Umboðsmaður Alþingis beindi þeim tilmælum til kjararáðs í fyrra að ráðið tæki erindi félagsins fyrir að nýju. Vísaði kjararáð þeirri beiðni félagsins frá í sumar. Magnús segir forstöðumenn ríkisstofnana hafa orðið fyrir 25% skerðingu miðað við menn í sambærilegum störfum.