Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) stóðu fyrir fundaröð á Hilton hóteli í gær þar sem forsvarsmenn atvinnulífsins funduðu með stjórnendum Seðlabankans, yfirmönnum innan bankanna, sérfræðingum og stjórnmálamönnum um gjaldeyrishöftin og áætlanir um afnám þeirra. Rætt var við aðilanna hvern í sínu lagi.

Að sögn Orra Haukssonar, framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins, var tilgangur fundanna að heyra hvað vakir fyrir mönnum og hlýða á hugmyndir þeirra. Lengsti fundurinn var haldinn með Seðlabankanum en frá bankanum mættu Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Sigríður Benediktsdóttir, Sturla Pálsson, Freyr Hermannsson og Þorgeir Eyjólfsson.

Orri tekur fram að hann hafi ekki setið allan fundinn með seðlabankamönnum en skoðanamunur atvinnulífsins og bankans kristalist sem fyrr í því hversu hratt menn vilji ganga í afnámi hafta. Már Guðmundsson hafi lýst yfir mikilvægi þess að afnema höftin, en einnig tekið skýrt fram að því fylgi mikil áhætta. Hann benti meðal annars á stöðu efnahagsmála í Evrópu.

Skoðanamunur atvinnulífs og Seðlabankans

Orri segir ljóst að Seðlabankanum hafi verið falið mikið hlutverk í afnámi haftanna. Bankinn sé hins vegar afar varfærinn og túlki alla áhættuþætti frekar til tafa. Það hafi verið gagnrýnt á fundinum í gær og þá staðreynt að núverandi áætlun sé ekki bundin neinum tímarömmum. Orri bendir á að á árunum 2008 og 2009, þegar efnahagshorfur voru verri hérlendis en þær eru í dag, hafi höftin verið sögð veita skjól. Í dag sé rökunum snúið við, þegar efnahagshorfur hafa skánað hérlendis en versnað í Evrópu.

Þá hafi áætlun Seðlabankans verið gagnrýnd fyrir skort á upplýsingum. Útboð Seðlabankans bendi til að hin svokallaða snjóhengja aflandskróna, og óþolinmæði aflandskrónueigenda, sé minni en talið hefur verið.

Lagabreytingar nauðsynlegar

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Viðskiptablaðið að á ráðstefnunni hafi verið farið yfir næstu skref áfnámsins og öll sjónarmið verið uppi á borðum. Meðal annars hafi verið rætt um lagabreytingar sem þarf að hrindra í framkvæmd. Þá hafi komið fram skýr vilji til þess að komandi kosningar tefji ekki vinnu við afnám haftanna en Hannes segir töluverða vinnu framundan á þingi vegna haftanna. Mikilvægt sé að hafa í huga að ákvarðanir um skref afnámsins sé í höndum þingsins.