Forsvarsmenn í iðnaði vara við að skorið verði niður í iðnmenntun, verkfræði- og tæknifræði og hafa Samtök iðnaðarins varað við flötum niðurskurði þessum greinum að undanförnu. Framundan séu tímar mikillar innlendrar framleiðslu en grunnur að henni er einmitt menntun og þjálfun í verk- og tæknigreinum.

Á vefsíðu Samtaka iðnaðarins er rætt við Tómas Má Sigurðsson, forstjóra Alcoa Fjarðaráls, Bjarna Thoroddssen, framkvæmdastjóra Stálsmiðjunnar og Önnu Maríu Jónsdóttur stjórnarmann í SI.

„Það vantar heila kynslóð í málmiðnaðinn,” segir Bjarni “Samtök iðnaðarins og félög í málmiðnaði hafa að undanförnu hafið átak til að laða að ungt fólk í málmiðnaðinn. Miklu fjármagni og mannskap hefur verið varið til kynningarátaks í þessu skyni. Átakið er byrjað að skila sér í aukinni aðsókn, t.d. í Borgarholtsskóla.

Telur Bjarni að nú sér hárréttur tími til að auka framboð á kennslu í málmiðnaði. Unga fólkið sem velur núna að læra málmiðnir komi á vinnumarkaðinn eftir 2-4 ár þegar atvinnulífið verði farið að rétta úr kútnum.

„Það er því rík ástæða til að hvetja stjórnvöld til að trufla ekki ferlið. Það væri agalegt að skera niður nám sem við erum búnir að leggja mikið á okkur til að efla, Það væri líka sorglegt ef við hefðum ekki hæfan mannskap til starfa í þeim greinum sem mun stytta skuldahala framtíðarinnar.”

Tómas Már Sigurðsson segir m.a.: “Nú þegar kreppir að er alveg nauðsynlegt að undirbúa sem flesta til að takast á við flóknari verkefni með því að standa vörð um og helst að efla iðnmenntun, verkfræði- og tæknifræði. Það skilar sér hjá þeim fyrirtækjum sem eru í rekstri og er einnig grundvöllur nýsköpunar og nýrra tækifæra.”

Anna María Jónsdóttir tekur í svipaðan streng og segir að það væri skelfilegt fyrir framgang iðn- og starfsnáms ef dregið væri úr framboði þess nú og hún spyr: “Hvað hafa stjórnmálamenn ekki alltaf talað um? Að auka veg og vanda iðn- og starfsnáms. Hvernig geta slíkar yfirlýsingar rímað saman við þann gjörning sem í vændum er?