Indverska bíla og iðnaðarsamsteypan Tata Group hefur hafnað 10 milljóna punda láni frá breskum yfirvölum sem ætlað var til að þróa rafbíl í Bretlandi upp úr einum af núverandi módelum Tata. Sunday Times greinir frá því að með ákvörðun sinni hafi Tata snuprað Mandelson lávarð og viðskiptaráðherra bresku stjórnarinnar, en 10 milljóna punda lánið átti að nota til að byggja upp tæknimiðstöð í Bretlandi.

Tata á m.a. hin þekktu bresku bifreiðamerki Jaguar og Land Rover og stálfyrirtækið Corus. Madelson tilkynnti í síðasta mánuði um þetta lán breska ríkisins og það yrði notað til að styðja við bakið á Tata við þróun rafbíla. Var þetta fé tekið frá sem hluti af stuðningsáætlun við bílaiðnaðinn til að komast í gegnum kreppuna, eða svokölluðu Automotive Assistance Programme (AAP). Átti þetta 10 milljóna punda ríkislán að styðja við 25 milljóna punda fjárfestingu Tata í European Technical Centre sem staðsett er í háskólanum í Warwick. Forsvarsmenn samsteypunnar hafa aftur á móti sagt breskum stjórnvöldum að þeir vilji ekki þetta lán þar sem þeir geti fengið betri kjör frá lánveitendum á markaðnum.