Hollensk-belgíski bankinn Fortis hyggst selja hlut sinn í spænska félaginu Caifor fyrir næstum einn milljarð evra, einum degi eftir að bankinn tilkynnti um útgáfu skuldabréfa fyrir tvo milljarða evra. Báðar aðgerðirnar eru liður í áformum Fortis að ná sér aukið fjármagn á markaði sem er bankanum nauðsynlegt til þess að geta fjármagnað sinn hluta í yfirtökutilboði RBS-hópsins á hollenska bankanum ABN Amro, en sú upphæð nemur samtals 15 milljörðum evra.

Hollenskur dómstóll mun fella þýðingarmikinn úrskurð í dag varðandi sölu ABN á bandaríska bankanum LaSalle til Bank of America fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala, sem var hluti af samkomulagi ABN og Barclays. Ef niðurstaðan verður sú að salan hafi verið lögleg mun RBS-hópurinn líkast til þurfa að leggja fram nýtt og hærra tilboð í ABN.