Ístak keypti veiðileyfi yfir helgi í Eystri-Rangá fyrir um 18 helstu stjórnendur og staðarstjóra fyrirtækisins í nokkrum löndum rétt eftir miðjan ágúst. Kolbeinn Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Ístaks, segir í samtali við DV fyrirtækið hafa undanfarin ár keypt nokkra daga í veiði handa stjórnendum. Það sé góð leið til að hrista mannskapinn saman. Veiðin hafi verið á þann hátt að menn hafi skipst á og flestir verið einn sólarhring í veiðum. Meðalverð á stöng í Eystri-Rangá í ágúst er um hundrað þúsund krónur.

Veiðiferðin stóð yfir frá frá hádegi föstudagsins 16. ágúst til hádegis mánudaginn 19. ágúst. Pihl og Søn, danskt móðurfélag Ístaks var lýst gjaldþrota 26. ágúst. Landsbankinn keypti Ístak 1. september úr þrotabúi Pihl og Søn.

Kolbeinn, sem var á meðal þeirra sem fóru í veiðiferðina, segir í samtali við blaðið ekkert óeðlilegt við að yfirstjórn Ístaks hafi farið í laxveiði á svipuðum tíma og móðurfélagið var að fara á hliðina. „Þetta er árlegur viðburður hjá okkur og ekkert við það að athuga,“ segir hann og bendir á að reynt hafi verið að finna vettvang þar sem menn geti sameinast, talað saman og endurnýjað vinskapinn.