*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 19. apríl 2019 19:01

Fóru ótroðnar slóðir

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir EES-samninginn hafa breytt miklu fyrir fyrirtæki á borð við Marel.

Ástgeir Ólafsson
„Ég held í raun og veru að fyrirtæki eins og Marel og Össur hefðu ekki orðið til í þeirri mynd sem þau eru hefðum við ekki orðið aðilar að evrópska efnahagssvæðinu.“
Haraldur Guðjónsson

Hörður Arnarson hefur gegnt starfi forstjóra Landsvirkjunar frá því í nóvember 2009. Þegar Viðskiptablaðið hóf göngu sína árið 1994 var Hörður hins vegar framkvæmdastjóri vöruþróunardeildar Marel en hann átti svo eftir að gegna starfi forstjóra fyrirtækisins frá 1999 til 2009.

Hörður sem er menntaður rafmagnsverkfræðingur hóf störf hjá Marel með skóla árið 1985. „Þannig var að ég var ritstjóri blaðs rafmagnsverkfræðinema sem hét Raflost og fékk í kjölfarið atvinnutilboð frá nokkrum fyrirtækjum, meðal annars frá Marel. Ég fékk reyndar líka atvinnutilboð frá Landsvirkjun. Á þeim tíma vildu flestir rafmagnsverkfræðingar helst vinna hjá Landsvirkjun en ég ákvað að bíða í tæp 25 ár með að taka því tilboði. Ég ákvað hins vegar að fara til Marel, þar sem mér fannst mjög spennandi það sem þar var að gerast.

Árið 1987 var ég svo á leiðinni í framhaldsnám til Bandaríkjanna þegar Marel fékk styrk frá Norræna iðnþróunarsjóðnum sem verður til þess að ég fer í doktorsnám til Danmerkur á þeirra vegum og var þeirra starfsmaður meðan ég var í náminu. Á þessum tíma hafði fyrirtækið tekið ákvörðun um að breikka vöruúrval sitt og vildi bæta við sig tölvusjón og gervigreind. Ég kom síðan heim með þessa tækni og við fórum að þróa margar nýjar vörur og áttu ýmsar þeirra eftir að verða að kjarnavörum fyrirtækisins. Þetta var því nokkuð vel heppnuð tækniyfirfærsla við að ná í nýja tækni sem var að verða til og nota hana síðan til þess að búa til vörur sem sköpuðu fyrirtækinu sérstöðu.“

Fóru ótroðnar slóðir
Hörður segir að saga Marel sé í raun ævintýri líkust. Á þeim 36 árum sem liðin eru frá stofnun þess hefur Marel farið úr því að vera nýsköpunarfyrirtæki í það að verða eitt verðmætasta fyrirtæki landsins og það verðmætasta í Kauphöllinni. „Marel er eitt fyrsta tæknifyrirtækið sem verður til á Íslandi og fer í útflutning. Fram að stofnun þess höfðu Íslendingar ekki verið að flytja út tækni. Þar af leiðandi voru engar fyrirmyndir til staðar og Marel og Össur, sem einnig verður til á svipuðum tíma, fóru því ótroðnar slóðir fyrir íslensk fyrirtæki. Það sem er dálítið sérstakt við að upplifa svona ferðalag er hvað menn gera sér ekki grein fyrir fyrr en eftir á hvað gerðist. Það sem einkennir þetta líka er að menn gerðu sér aldrei alveg grein fyrir tækifærunum. Menn voru með mikla drauma í upphafi en þeir voru bara brot af þeim árangri sem fyrirtækið hefur síðan náð.“

Hann segir að fyrstu tímamótin í sögu fyrirtækisins hafi verið sjóvogin sem í raun bjó fyrirtækið til. „Ég myndi segja að næstu tímamót hafi verið þegar við fórum yfir í heildarkerfi og það að ná tökum á tölvusjóninni á réttum tíma var einnig mikilvægt. Markaðslega má einnig segja að það hafi verið mikilvægt að komast yfir í kjúklinga- og kjötiðnað. Við fórum fyrst inn á kjúklingamarkaðinn 1994-1995 og það er alveg ljóst að tölvusjónin hjálpaði til við það.“

Á þeim tíma sem Hörður starfaði hjá Marel og einnig eftir hans tíma hefur fyrirtækið vaxið gífurlega. Vöxturinn hefur bæði átt upptök sín í innri vexti en einnig með yfirtökum á öðrum fyrirtækjum. Að sögn Harðar hófst yfirtökusaga Marel með kaupum félagsins á danska fyrirtækinu Carintech árið 1997. „Þetta voru í raun fyrstu stóru íslensku fyrirtækjakaupin á erlendu félagi. Þá keyptum við fyrirtæki sem var álíka stórt og Marel. Eftir þetta fórum við í nokkrar yfirtökur á minni fyrirtækjum en síðan varð næsta stóra yfirtaka árið 2006 þegar við keyptum Scanveagt, þá tvöfaldast fyrirtækið aftur. Síðan var síðasta stóra yfirtakan sem ég kom að kaupin á Stork en þá tvöfölduðum við okkur enn á ný. Þetta voru því þrjár yfirtökur þar sem fyrirtækið tvöfaldaðist í hvert skipti.“

Viðtalið má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið.