Haft hefur verið á orði að konur í viðskiptalífinu hafi ekki með beinum hætti stigið fram í kjölfar #metoo, líkt og sumar aðrar starfstéttir. „Það sem mér finnst helst sitja eftir eru þessir kraftar sem leystust úr læðingi með #meetoo byltingunni. Við verðum aldrei söm,“ segir Helga Melkorka Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar LOGOS og viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

„Við förum aldrei til baka. Það finnst mér vera sterkast í þessu. Þetta er svo mikið risamál að maður hefur næstum fellt tár við að heyra hvernig traðkað hefur verið á konum, oftar en ekki í skjóli valds. Maður gengur þess vegna út frá því að þetta sé meira og minna allstaðar. Það sem er líka merkilegt er að sjá er kynslóðabilið. En sem betur fer fyrir okkur og komandi kynslóðir þá er búið að koma þessu upp á yfirborðið. Ekki að þar með sé allt orðið frábært og fullkomið, langt því frá, en meðvitundin um að þetta er ekki í lagi er orðin meira norm heldur en hitt. Þá er meiri skilningur gagnvart þeim sem hafa í þessu lent. Það gerði þessar sögur líka svo áhrifamiklar og áþreifanlegar að þær voru nafnlausar. Þetta snerist ekki nema í stöku tilvikum um ákveðnar persónur eða nöfn heldur er þetta samfélagsmein sem við þurfum öll saman að uppræta.“

Óheppilegur órói kringum Landsrétt

Haft var eftir Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni lögmanni í kvöldfréttum RÚV á sunnudaginn í súðustu viku að hann hygðist krefja skaðabóta yrði umbjóðandi hans sakfelldur fyrir Landsrétti. Lögmaðurinn styður þessa kröfu þeim rökum að einn dómaranna í málinu hafi ekki verið meðal fimmtán efstu að mati hæfnisnefndar við skipun í Landsrétt og væri dómarinn því ekki handhafi dómsvalds. Helga Melkorka segir miður hvernig umræðan um Landsrétt hefur verið því stofnun millidómsstigs hafi verið löngu tímabær í íslensku réttarkerfi. „Mér finnst afskaplega óheppilegt að þessi órói hafi í orðið kringum skipun Landsréttardómara. Stofnun dómstólsins er svo stórt skref en það er vont að það skyldi spilast svona úr þessu. Þetta rót er mjög óheppilegt,“ segir Helga Melkorka og rifjar í því samhengi upp að Hæstiréttur ætlar að taka fyrir mál þar sem beiðni um áfrýjun var sett fram með vísan til þess að meðal dómara í málinu fyrir Landsrétti hefði verið dómari sem ekki væri með réttu handhafi dómsvalds með því að skipun viðkomandi í embætti hefði ekki verið lögum samkvæm. Málið er það fyrsta sem kemur til meðferðar Hæstaréttar eftir þær breytingar sem tóku gildi í byrjun árs þegar Landsréttur tók til starfa. „Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr því.“