„Við byrjuðum upphaflega sem lítil myndbandaleiga í smá plássi hérna í Hamraborginni og höfum vaxið töluvert síðan þá,“ segir Guðlaugur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Video-markaðarins, sem er meðal fárra eftirlifandi myndbandaleigna á landinu.

Fyrirtækið er þó með umsvifameiri starfsemi, en það rekur sjoppu, happdrættissölu í verslun þeirra í Kópavogi og í Kringlunni auk þess sem það rekur Gullnámuna í kjallara verslunarinnar.

„Vídeóið er ekki nema 5% af rekstrinum en sá hluti byrjaði að dala töluvert fyrir svona fimm árum síðan en á móti jókst salan í sjoppunni. Fólk er náttúrulega farið að sækja sér kvikmyndir aðallega í gegnum netið þessa dagana. Það er ástæðan fyrir því að þetta hefur dalað og margar myndbandaleigur lagt upp laupana,“ segir hann.

Viðtal við Guðlaug birtist í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með Viðskiptablaðinu í morgun. Þar er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .