Hljómsveitin íslenska Of Monsters and Men er flestum þekkt, enda hefur hún farið sannkallaða sigurför um heiminn. Hljómsveitarmeðlimir eru fimm talsins og sitja þeir allir í stjórn eignarhaldsfélagsins Skrímsl ehf., sem heldur utan um rekstur og uppihald hljómsveitarinnar.

Hljómsveitin keflvíska sigraði í keppninni Músíktilraunum árið 2010 og eftir það gaf hún út sína fyrstu smáskífu, Into the Woods. Í verðlaun fyrir að vinna Músíktilraunir fengu þau að spila á Iceland Airwaves, og hlutu talsverða athygli eftir að bandaríska útvarpsstöðin KEXP tók þau upp að spila lag sitt „Little Talks“.

Fjármál forynjanna ná fljúgandi hæðum

Á árinu 2015 verður greiddur 50 milljóna króna arður til hluthafanna fimm, en hver og einn þeirra á 20% hlut í félaginu. Arðgreiðslan nemur því um 10 milljónum króna á mann.

Skrímsl ehf. hagnaðist um 37,8 milljónir króna árið 2014, miðað við 73 milljón króna hagnað árið 2013. Hagnaður sveitarinnar var hins vegar neikvæður árið 2012, en þá tapaði Skrímsl ehf. um 700 þúsund krónum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .