*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Innlent 28. september 2016 16:02

Forystufé bragðast eins og villibráð

Kjötborðið er nýtt markaðstorg þar sem neytendur geta keypt kjöt beint frá bónda. Kjöt af forystufé verður til að mynda í boði.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Kjötborðið er nýtt markaðstorg á netinu sem á auðvelda bændum og kjötframleiðendum að selja framleiðslu sína beint til neytenda.

Heimasíða markaðstorgsins er kjotbordid.is.

Auðvelda aðgengi og sölu

„Markmiðið er að auðvelda aðgengi almennings að hágæðalandbúnaðarvörum og auðvelda bændum að koma sinni framleiðslu á framfæri til neytenda,“ segir Vignir Már Lýðsson tengiliður Kjötborðsins í samtali við Viðskiptablaðið.

„Viðbrögðin hafa verið vonum framar en nú þegar hafa hátt í þúsund manns skráð sig á póstlista Kjötborðsins sem áhugasamir kaupendur að kjöti beint frá býli. Auðvelt aðgengi á vef er mikilvægt í nútímasamfélagi en neytandinn vill geta farið inn á vefsíðu og keypt án vandkvæða, gefið kjöti og seljendum einkunn og deilt reynslu sinni með öðrum á samfélagsmiðlum.“

Heimaslátrað eða ekki eftir vali neytendans

Á síðunni verður hver bóndi og framleiðandi með aðgang þar sem þeir geta haldið utan um framboð og tekið við pöntunum, en í fyrstu atrennu verður einblínt á að selja heila og hálfa skrokka af lambakjöti

„Þeir setja bara nauðsynlegar upplýsingar inn á síðuna um kjötið, þannig að neytandinn getur tekið upplýsta ákvörðun byggt á því hvers konar vara um er að ræða, þannig að hvort sem um er að ræða heimaslátrun eða slátrað í sláturhúsi þá er neytandanum ljóst hvernig í pottinn er búið,“ segir Vignir.

Býður upp á kjöt af forystufé

Hann segist vera að vinna í að fá fleiri framleiðendur á vefinn en nú þegar eru nokkrir áhugasamir komnir á markaðstorgið.

„Til dæmis verður Gunnar Einarsson bóndi á Daðastöðum í Öxarfirði sem ætlar að bjóða upp á kjöt af forystufé. Hann ætlar að prófa þetta en hann vill meina að bragðið af því sé meira svona eins og af villibráð,“ segir Vignir.

„Við finnum líka fyrir því að margir sem hafa samband sem eru með kannski fleiri hundruð skrokka í frysti og þurfa að koma þeim út. “

Sérhæfing í markaðsmálum og samstarf við bændur

Bændurnir munu svo senda kaupendunum kjötið, eða jafnvel í einhverjum tilfellum keyra kjötið sjálfir heim til neytendanna, allt eftir hentisemi bændanna.

„Við gerum þetta í samstarfi við bændurna og það er svolítið það sem viljum vekja athygli á að þetta er kjörinn samstarfsvettvangur markaðsaðila og framleiðenda,“ segir Vignir.

„Það er mikilvægt að menn einbeiti sér að því sem þeir eru bestir í, að þeir geti komið framleiðslu sinni inn á form þar sem markaðssetning er í gangi.“

Stefnt á Hreindýra- og gæsakjöt

Vignir segir að þótt byrjað verði að selja lambakjöt þá sé markaðstorgið hugsað sem almennur söluvettvangur fyrir kjöt á netinu.

„til að mynda höfum við verið að þreifa fyrir okkur með hreindýrakjöt og gæsakjöt, það er að segja kjöt sem er kannski erfitt að fá eða aðgengið er erfitt að, svo verður innan skamms sett þarna inn nautakjöt, svínakjöt og folaldakjöt,“ segir Vignir.

„Hugmyndin að vefsíðunni spratt upp í haust þegar við sáum þann mikla fjölda framleiðenda sem hafði reynt að bjóða kjötið sitt til sölu í gegnum tugi mismunandi auglýsingasíðna hér og þar á netinu þar sem oft og tíðum er afar erfitt að finna tiltekna hluti. Aðgengi neytenda var afar slæmt og erfitt fyrir fólk að átta sig á úrvalinu auk þess sem það getur verið erfitt fyrir bændur að finna réttu síðurnar til að selja á.“