Bæði forseti Alþýðusambands Íslands og forystumenn Rafiðnaðarsambands Íslands gagnrýna hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa höndlað rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.

„Víðtæk sátt náðist um áætlunina í meðferð hinna ýmsu hagsmunahópa er um hana hafa fjallað og eru það ótæk vinnubrögð að breyta slíkri áætlun eingöngu af pólitískum ástæðum. Ef sátt á að ríkja um áætlanir um nýtingar náttúruauðlinda til framtíðar er nauðsynlegt að halda pólitík fyrir utan slíka áætlun, enda eru auðlindir landsins ekki til þess gerðar að slá pólitískar keilur!," segir í ályktun sem samþykkt var á sambandsstjórnarfundi Rafiðnaðarsambandsins.

Gylfi Arnbjörnsson, forset ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forset ASÍ.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, kemur líka inn á þetta í 1. maí ávarpi sínu þar sem hann fjallar um rammaáætlunina.

„Hún er forsenda fyrir því að hægt sé að gera áætlanir um uppbyggingu orkufrekrar en umhverfisvænnar atvinnustarfssemi. Eftir að mikil og góð vinna hafði verið lögð í verkið var dapurlegt að sjá málið þynnast út í bakherbergjum stjórnarflokkanna með niðurstöðu sem er ekki í samræmi við þá faglegu vinnu sem áður hafði verið unnin."