Foss fasteignafélag hagnaðist um 73,5 milljónir króna í fyrra. Árið áður hagnaðist félagið um 76 milljónir króna. Eina starfsemi félagsins er að eiga og reka fasteignir að Bæjarhálsi 1, þar sem höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur eru meðal annars til húsa.

Húsaleigutekjur ársins 2016 námu 234 milljónum króna samanborið við 230 milljónir árið áður. Hins vegar nam rekstrarkostnaður félagsins 12,7 milljónir króna í fyrra samanborið við 11,8 milljónir árið áður. Matsbreytingar fjárfestingaeigna voru jákvæðar um ríflega 100 milljónir. Rekstrarhagnaður félagsins nam 321,6 milljónum árið 2016.

Eignir félagsins í árslok 2016 voru metnar á 5,4 milljarða króna. Eigið fé Foss fasteignafélags nam 1,35 milljörðum við áramótin. Langtímaskuldir félagsins nam 3,9 milljörðum í lok árs 2016. Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins eru starfsmenn Kviku banka.

Stærsti hluthafi í Fossi fasteignafélagi er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, A deild með 19,95% hlut. Festa, lífeyrissjóður á 19,46% hlut í félaginu og Birta 16,50% hlut. Einnig á Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 16,5% hlut í Fossi.