Nú þegar einungis einn viðskiptadagur er eftir í Kauphöllinni á árinu nemur velta ársins á hlutabréfamarkaði um 610 milljörðum króna og hefur aukist um 20,5% á milli ára eftir að hafa dregist saman um 20% árið 2018 samkvæmt gögnum úr Kodiak Excel.

Munar þar mestu um að velta með bréf Arion Banka jókst um 84,5 milljarða króna á árinu í 98,2 milljarða en aukningin skýrist meðal annars af því að bankinn var ekki skráður á markað fyrr en í júní á síðasta ári auk þess sem viðskipti með bréf hans fóru hægt af stað hér á landi.

Þegar tuttugu stærstu viðskipti ársins á hlutabréfamarkaði eru skoðuð er óhætt að segja að bréf bankans hafi verið fyrirferðamikil. Bréf Arion banka skiptu um eigendur í þremur stærstu viðskiptum ársins, í fimm af tíu stærstu viðskiptunum og sjö af þeim tuttugu stærstu þar sem samanlögð velta þeirra nemur um 47 milljörðum króna. Þá ber einnig að geta þess að inn í þeirri upphæð er sala Kaupskila á 20% hlut í bankanum í júlí fyrir 27,4 milljarða.

Þegar litið er á hvaða fjármálafyrirtæki það voru sem voru sem komu að miðlun tuttugu stærstu viðskiptanna þá voru það Fossar markaðir sem komu að helmingi þeirra eða tíu talsins. Fossar komu jafnframt að þremur stærstu viðskiptum ársins og fimm af þeim tíu stærstu. Með næst flest af stærstu viðskiptum ársins var svo Kvika banki með fjögur, Arctica Finance með þrjú, Landsbankinn með tvö og Arion banki með ein.

Af tuttugu stærstu viðskiptunum voru eins og áður segir sjö þeirra með bréf Arion banka, fjögur með bréf Marel, þrjú með bréf Símans og Brim, tvö með bréf Haga og ein þeirra með bréf VÍS.

Þrátt fyrir að hafa átt einungis ein af stærstu viðskiptum ársins var það þó Arion Banki sem var með hæstu hlutdeildina af viðskiptum á hlutabréfamarkaði eða 20,7% en dróst þó saman um fjögur prósentustig  á milli ára. Þar á eftir kemur Íslandsbanki með 19,8% en hlutdeild bankans jókst um 4,8 prósentustig á milli ára. Í þriðja sæti koma svo Fossar markaðir með 19,1% en voru þó það fyrirtæki með mestu hlutdeildaraukninguna á milli ára eða 6,2%.