*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 3. maí 2018 11:55

Fossar byrja með fyrirtækjaráðgjöf

Fossar markaðir hf. hafa nú fengið leyfi frá Fjármálaeftirlitinu til að vera með fyrirtækjaráðgjöf.

Ritstjórn
Haraldur Þórðarsson er forstjóri Fossa.
Aðsend mynd

Fjármálaeftirlitið hefur veitt Fossum mörkuðum hf. aukið starfsleyfi sá grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Starfsleyfið felst í því að nú hefur fyrirtækið leyfi til að veita fyrirtækjum ráðgjöf. Hún fælist í uppbyggingu eigin fjár, stefnumótun og skyld mál fyrir fyrirtækin, auk ráðgjafar og þjónustu vegna samruna fyrirtækja og kaupa á þeim.

Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa markaða segir að nauðsynlegt hafi verið að sækja um þessa viðbótarheimild. „Verkefnin sem leitað hefur verið með til okkar hafa verið að taka breytingum eftir því sem hlutabréfamarkaðurinn hefur náð að þroskast á undanförnum árum,“ segir Haraldur.

„Við höfum verið með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, en þörfin fyrir þá þjónustu sem fyrirtækjaráðgjöfin mun ná utan um hefur aukist sem mun endurspeglast í þessari auknu starfsemi hjá okkur. Við viljum geta veitt viðskiptavinum okkar þá þjónustu sem þeir þurfa á hverjum tíma. Þetta gerir okkur kleyft að vera með víðtækari þjónustu en við höfum verið að bjóða hingað til.“

Fossar markaðir eru með skrifstofur í Fríkirkjuvegi 3, þar sem Innkaupastofnun Reykjavíkur var áður til húsa, auk þess að vera með skrifstofur í London og Stokkhólmi. Hjá fyrirtækinu starfa 15 manns.