*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 18. ágúst 2017 11:47

Fossar fá starfsleyfi í Bretlandi

Verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir hafa fengið starfsleyfi í Bretlandi.

Ritstjórn
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.
Haraldur Guðjónsson

Breska fjármálaeftirlitið hefur veitt Fossar Markets Ltd. sjálfstætt starfsleyfi til þess að veita fjármálaþjónustu í Bretlandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fossum.

Fossar Markets Ltd. er hluti af samstæðu íslenska verðbréfafyrirtækisins Fossa markaða. Félagið rekur nú þegar skrifstofu í Stokkhólmi ásamt því að vera með aðalskrifstofur í Reykjavík. Í lok júní var tilkynnt að David Witzer hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Fossa í Bretlandi og mun hann stýra uppbyggingu á starfsemi félagsins þar í landi.

Starfsleyfið veitir Fossum færi á að veita viðskiptavinum sínum, jafnt innlendum sem erlendum, víðtæka fjármálaþjónustu á alþjóðavísu. Starfsemi Fossa í London mun auka við þá öflugu starfsemi sem félagið hefur nú þegar byggt upp. Auk fagfjárfesta eru fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir á meðal viðskiptavina Fossa.

Í tilkynninguinni segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða:

„Við fögnum þeim áfanga að vera komin með sjálfstætt starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu. Starfsemi okkar í Bretlandi hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma og við sjáum fram á að efla hana enn frekar á komandi misserum. Með auknu frjálsræði í fjármagnsflutningum er markaðsumhverfi okkar innlendu viðskiptavina orðið alþjóðlegt og við erum nú betur í stakk búin til þess veita þeim framúrskarandi  þjónustu í þessum nýja raunveruleika. Enn fremur munum við veita erlendum viðskiptavinum okkar víðtækari þjónustu en við höfum gert fram til þessa.“