Fossar markaðir hafa gert samstarfssamning við Neuberger Berman Europe Limited um sölu og dreifingu á erlendum sjóðum Fossa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Neuberger Berman Group er eignastýringarfélag sem stofnað var í Bandaríkjunum. Hjá fyrirtækinu starfa um 2 þúsund manns í 19 löndum. Eignir í stýringu hjá fyrirtækinu nema um 246 milljörðum dollara. „Neuberger Berman býður upp á mikið úrval sjóða í hlutabréfa-, skuldabréfa-, framtaks- og vogunarsjóðum og vinnur náið með stofnanafjárfestum og ráðgjöfum um heim allan“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Önnu Þorgbjörgu Jónsdóttur, að samstarfið við Neuberger Berman bjóði viðskiptavinum upp á mikilvæg tengsl við alþjóðlega fjárfestingastarsemi. „Í gegnum samstarfið bjóðum við viðskiptavinum okkar að fjárfesta í fjölbreyttu úrvali sjóða, sem hafa sýnt framúrskarandi ávöxtun. Neuberger Berman er traustur og reynslumikill samstarfsaðili og leggur mikla áherslu á að hagsmunir sjóðstjóra fyrirtækisins fari saman við hagsmuni fjárfesta. Dæmi um það er að sjóðstjórarnir og fjölskyldur þeirra fjárfesta í þeim sjóðum sem þeir stýra“ segir Anna Þorbjörg í tilkynningunni.

Dik van Lomwel sem er yfirmaður EMEA (Evrópa, Miðausturlönd og Afríka) og LATAM (Mið- og Suður-Ameríka) hjá Neuberger Berman, segist hæstánægður með samstarfið Fossa markaði. Hann telur einnig samstarfið lykilþátt í sókn fyrirtækisins inn á íslenskan markað.