*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 24. júlí 2020 19:20

Fossar sektaðir fyrir kaupaukakerfi

Arðgreiðslur til eigenda B-hlutabréfa Fossa hafa frá og með árinu 2016 numið tæpum 345 milljónum króna.

Sigurður Gunnarsson
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða
Haraldur Guðjónsson

Verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir hefur verið sektað um 10,5 milljónir króna af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (FME) vegna B-flokks hlutabréfa fyrirtækisins, samkvæmt tilkynningu eftirlitsins í dag

FME túlkaði svo að þessi bréf féllu undir kaupauka og því brotið lög sem kveða um að samtala veitts kaupauka til starfsmanna má á ársgrundvelli ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka. Einnig bryti þetta gegn lögum um að óheimilt sé að greiða stjórnarmönnum og starfsmönnum regluvörslu kaupauka. 

Með samþykktum Fossa þann 10. desember árið 2015 var hlutafé félagsins skipt í A og B flokk. Hlutafé í A-flokki nam upphaflega 261,1 milljón króna og í B-flokki 21,3 milljónum króna. 

Hlutabréf í B-flokki, ólíkt A-flokki, fylgja ekki atkvæðisrétti, forgangsrétti að aukningarhlutum í A flokki eða forkaupsrétti. Einnig skal eigendum hluta í B-flokki sæta innlausn hluta sinni, taki stjórn félagsins ákvörðun um innlausn, sem skal ávallt fara fram miðað við nafnverð hluta, eða ein króna á hlut. Eigendaskipti með B-bréf eru einnig óheimil án sérstaks fyrirframgefins samþykkis stjórnar. 

Frá og með árinu 2016 hefur heildarfjárhæð B-hluta félagsins numið frá 21,3 til 30,4 milljónum króna en arðgreiðslur til eigenda hlutanna hafa frá og með sama ári numið samtals tæpum 345 milljónum króna.

„Svo mikill munur á fjárhagslegri áhættu og hagnaði bendir til þess að önnur sjónarmið en öflun hlutafjár hafi ráðið ferðinni þegar félagið skipti hlutafé í A og B flokk,“ segir í ákvörðun FME. 

Í upphafi voru hlutir í B-flokki í eigu félaga, sem aftur voru í eigu starfsmanna félagsins og eins aðila sem sat í stjórn félagsins frá júlí 2015 til nóvember 2016 og sinnti jafnframt ráðgjafastörfum fyrir félagið á því tímabili. Þeir starfsmenn sem hér um ræðir voru framkvæmdastjóri félagsins, yfirmaður markaðsviðskipta og þrír starfsmenn markaðsviðskipta. 

Rök Fossa voru meðal annars þau að eignarhald á B-hlutum væri ekki háð því skilyrði að viðkomandi sé starfsmaður í félaginu. Í öðru lagi geri samþykktir félagsins ráð fyrir að þegar ákvörðun um innlausn er tekin hefur hún farið fram á nafnverði. Sé eigandi B-hluta þannig starfsmaður, er á engan hátt horft til afkomu þess starfssviðs sem hann hefur unnið hjá. Einnig sé eingin tenging milli ráðningarsamninga þeirra sem eiga B-hluti og réttinda þeirra sem A- eða B-hluthafa.

Stikkorð: Fossar markaðir Fossar