Það gerist ekki á hverju ári að fyrirtæki flytji af einum stað á annan. Í rúmlega 75 ára sögu fyrirtækisins Fossberg ehf hefur það einungis gerst tvisvar þar til um mánaðarmótin ágúst/september 2004. Þá flutti Fossberg í þriðja skiptið, af Suðurlandsbraut 14 í Dugguvog 6, 104 Reykjavík.

Fossberg ehf hefur verið að vaxa töluvert á undanförnum misserum. Flutningurinn í Dugguvog 6 færir fyrirtækið nær viðskiptavinum, einnig er öll aðkoma betri og veglegri og mun fleiri bílastæði fylgja hinu nýja húsnæði.

Fossberg hefur ætíð haft sterka stöðu meðal íslenskra iðnaðarmanna. Viðkvæðið hefur verið: þú færð það hjá Fossberg -- ef það fæst á annað borð. Fyrirtækið er þekkt sem sérverslun fagmannsins, þar sem faglega afgreiðsla, sölumennska og ráðgjöf, er í fyrirrúmi. Boðið er upp á vönduð vörumerki og gæðaumboð, s.s. handverkfæri frá Stahlwille, slípivörur frá Flexovit, renniverkfæri frá Tungaloy, olíur og efnavöru frá Rocol og Weicon, og ekki síst mikið og gott úrval af boltum og fittings.

Nú hafa fleiri umboð bæst við t.d. Unior en Fossberg hefur einkaumboð fyrir þá verkfæralínu á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.