„Ég hef ekki getað sinnt þessu, það er alveg ljóst,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, í samtali við Fréttablaðið en hún hefur ekki getað sótt fundi ráðsins frá árinu 2013. Hún vill losna undan skyldum sínum í ráðinu þar sem hún kveðst ekki geta sinnt þeim vegna anna. Hins vegar má hún það ekki vegna reglna um kynjakvóta.

Varamenn hafa þurft að mæta á fundi í stað Unnar. Hún segist hafa óskað eftir því að komast út úr varaformennsku ráðsins, en með því að vera sitjandi varaformaður og mæta ekki líti út fyrir að hún sé ekki að sinna vinnunni sinni, sem sé hins vegar alrangt.

„Ég kemst ekki úr þessu embætti vegna þess að ég er kona og við þurfum að uppfylla reglur ráðsins um kynjakvóta,“ segir Unnur Brá.