Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,09% frá fyrri mánuði í janúar og fór hún niður í 446,8 stig, en hún miðast við 100 stig í maí 1988. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 384,4 stig og lækkar um 0,57% frá desember 2017 að því er fram kemur á vef Hagstofunnar .

Vetrarútsölur eru víða í gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 10,0% (áhrif á vísitöluna -0,35%). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkar um 0,9% (0,19%). Flugfargjöld til útlanda lækka um 9,0% (-0,10%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,4% sem er mesta aukning verðbólgunnar síðan í júlí árið 2014, og nálgast hún nú 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Vísitalan án húsnæðis hefur hins vegar lækkað um 0,9%.