*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 6. ágúst 2021 19:02

Meira fótapláss og betri matur hjá Play

Í samanburði á Icelandair og Play kom í ljós að fótaplássið var meira hjá því síðarnefnda.

Ritstjórn
HAG / AÐSEND

Fótarými í Airbus A321 flugvélum Play er með því betra sem finna má með almennu flugi og er meira en í 737 MAX 8 vélunum hjá Icelandair. Þá er maturinn einnig betri hjá Play en Icelandair býður upp þó upp á ýmsa aðra þætti umfram Play, að því er kemur fram í samanburði Ben Smithson hjá vefsíðunni ThePointsGuy, sem sérhæfir sig í fluggeiranum.

Smithson flaug með Play frá London Stansted til Keflavíkur og segir að ferðin hafi komið mjög ánægjulega á óvart. „Fyrir lágfargjaldaflugfélag, þá var hún frábær.“ Á heimleiðinni flaug hann með Icelandair til að bera saman nýjasta og elsta flugfélag Íslands. Hann taldi sig heppinn að fljúga með bestu flugvélum beggja félaga, A321 neo þotunni frá Play og Boeing 737 MAX 8 hjá Icelandair.

Í samanburði á verðlagningu íslensku flugfélaganna á flugi aðra leið á milli London og Keflavíkur var almenna fargjaldið um 10.800 krónur (62 pund) með Play en 19.600 krónur (112 pund) hjá Icelandair. Hins vegar kostaði 20 pund aukalega að ferðast með handfarangur með Play á meðan það var innfalið hjá Icelandair. Smithson fannst upplifunin að lenda á Heathrow vellinum með Icelandair hafi verið mun betri en að fljúga frá Stansted vellinum. Hann segir þó:

„Ég endaði á að greiða nánast tvisvar sinnum meira fyrir flugið með Icelandair heldur en hjá Play en mér fannst upplifunin ekki hafa verið tvöfalt betri – reynslan var nokkuð jöfn heilt yfir.“

Hvað varðar greiðslumöguleika, bendir hann á að Play tekur einungis við greiðslum í gegnum Visa og Mastercard fyrir fargjöld og kaup á vörum um borð á meðan Icelandair tekur á móti öllum helstu kreditkortum, þar á meðal American Express.

Meira fótapláss hjá Play en betri sæti hjá Icelandair

Sætaplássið er sá þáttur sem Smithson segir hafið komið sér hvað mest á óvart í samanburðinum á flugfélögunum tveimur. Þó báðar vélar hafi 3-3 sætaskipan, sem þýðir að breiddin sé svipuð í almennu farrými, þá hafi A321 neo vélin hjá Play 86,3 cm (e. 34 inches) í fótarými. Hins vegar hafi 737 MAX 8 vélin „mun þrengra“ og staðlaðri 77,7 cm (e. 31 inches) fótapláss „líkt og þú myndir búast við hjá öðrum evrópskum flugfélögum í sama gæðaflokki og Icelandair.

„Ef fótapláss er þér mikilvægt, þá er Play A321 neo vélin með mögulega rausnarlegasta fótaplássið meðal evrópskra lágfargjaldaflugfélaga,“ segir Smithson og bætir við að hann yrði sáttur með sambærilegt fótarými í dýrari flugum hjá flugfélögum á borð við Qatar Airways og Singapore Airlines.  

Hann segir þó að sætin hjá Icelandair séu áberandi þægilegri og flottari en sætin hjá Play sem séu þó nokkuð þægilega fyrir stutt flug. Einnig hrósaði hann Icelandair fyrir afþreyingarefnið í skjánum á bakhlið stólanna ásamt Wi-Fi tengingunni sem er í boði, en Play býður upp á hvoruga þjónustu í sínum flugum.

Hann ítrekar þó að fótaplássið hjá Play sé framúrskarandi og muni líklegast ekki sjást hjá nokkru öðru almennu flugfélagi, hvað þá lággjaldaflugfélagi. „Ég myndi velja þessa vél fram yfir allt sem Icelandair notar í almennu flugi (e. economy flight).“

Verri matur hjá Icelandair

Líkt og vænta má hjá lággjaldaflugfélagi þarf að greiða fyrir allan mat og drykki hjá Play en það virðist hafa komið Smithson á óvart að einungis kaffi, te, vatn og gos sé innifalið hjá Icelandair. Verð á mat og drykk var sambærilegt hjá flugfélögunum tveimur en Smithson fann fyrir mun á matnum.

„Ég var í raun mjög hrifinn af gæðum matsins [hjá Play] sem var í boði og elskaði íslensku tenginguna,“ segir hann. „Maturinn sem ég keypti var augljóslega ekki jafn góður hjá Icelandair og hjá Play,“ en hann virðist ekki hafa verið sáttur með „deigkenndu“ og „kolvetnamiklu“ pítsunni sem hann fékk hjá Icelandair.

Bæði flugfélögin eru með vinaleg og fagmannlega áhöfn að hans sögn. Starfsfólk Play voru óformlegri í klæðnaði og öll nokkuð ung. Icelandair áhöfnin var þó í hefðbundnari „viðskiptalegum“ (e. corporate) fatnaði og sá fyrir ýmiskonar þjónustu sem þekkist hjá eldri og reynslumeiri flugfélögum.

Hann minnist á að Play sé ekki með vildarkerfi líkt og Saga Club hjá Icelandair. Þessi valmöguleiki sé þó ekki mjög nytsamlegur fyrir breska ferðalanga og vonar að Icelandair nái samstarfssamningi við stórt evrópskt flugfélag sem fæli í sér að hægt yrði að færa vildarpunkta á milli félaga, líkt og samstarfið sem Icelandair er með við JetBlue og Alaska Airlines.

Bæði flugin hans fóru af stað og lentu á réttum tíma. Að lokum segir Smithson að hann hafi notið þess að fljúga með báðum flugfélögum og myndi glaður fljúga aftur með þeim til og frá þeim meiriháttar áfangastaða sem Ísland er.

Stikkorð: Icelandair Play