Hreiðar Þór Jónsson tók við starfi forstöðumanns á markaðssviði Vífilfells í byrjun júlímánaðar. Aðspurður segir hann nýja starfið leggjast mjög vel í sig. „Þetta er mjög spennandi starf og það eru spennandi tímar fram undan hjá fyrirtækinu,“ segir Hreiðar Þór. Hann hefur unnið hjá Vífilfelli frá árinu 2007, fyrst sem vörumerkjastjóri og síðar sem sölu- og markaðsstjóri áfengis og loks markaðsstjóri bjórs og heitra drykkja.

Hreiðar Þór útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2000. Hann hefur lengi fengist við markaðsmál. Áður en hann tók til starfa hjá Vífilfelli starfaði hann hjá Símanum.

Styður börnin í Stjörnunni

Hreiðar Þór ólst upp í Kópavogi og gekk í Menntaskólann í Kópavogi. Hann spilaði fótbolta í yngri flokkum með Breiðablik og með HK í meistaraflokki. Fótbolti er enn í miklu uppáhaldi hjá honum. Hann fylgist með boltanum og spilar með Old boys hjá Breiðabliki þegar tími gefst til. Í enska boltanum er Hreiðar Már þó tryggur Liverpool aðdáandi. Hreiðar Þór er giftur Regínu Björk Jónsdóttur, þjónustustjóra hjá Arion banka, og eiga þau þrjú börn. Hann segist núna styðja Stjörnuna þar sem strákarnir hans keppa fyrir liðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .