Það leggst mjög vel í mig að taka við þessu starfi. Það er heilmikið verk að vinna sökum COVID-19 ástandsins og bankinn þarf að sýna að hann geti gert það besta úr þessum aðstæðum,“ segir Úlfar.

„Upplifun fólks af bankakerfinu eftir hrunið var mjög slæm og þess vegna er afar mikilvægt að við sem störfum í þessum geira vöndum vel til verka og náum að vinna úr þessum óvenjulegu aðstæðum,“ segir hann og bætir við að meðan á samkomubanninu stóð varði hann miklum tíma með fjölskyldunni sem var dugleg að spila saman á spil.

„Það var allt einhvern veginn miklu rólegra og minni hraði í öllu. Maður getur kannski lært af þessu öllu saman að vera ekki alltaf að flýta sér svona mikið.“ Úlfar er doktor í stærðfræði frá Georgia Institude of Technology en hann segir ástæðuna fyrir því að hann valdi að mennta sig í því fagi vera þá að það henti honum að hafa skýrar reglur til að vinna eftir. „Ég er þannig gíraður að það hentar mér vel að hafa eitthvert forsendukerfi til að vinna með, vinna eftir skýrum reglum og leysa flókin verkefni.“

Eftir námið í Bandaríkjunum lá leiðin í áhættustýringu. „Áður en ég fór út í námið til Bandaríkjanna starfaði ég í eitt ár í áhættustýringu hjá Kaupþingi en þá var ég nýútskrifaður úr stærðfræði við Háskóla Íslands. Það var í raun þá sem ég heillaðist af starfinu. Síðan þegar ég kom heim rétt eftir hrun þá fékk ég starf hjá slitabúi Kaupþings. Síðan hef ég unnið hjá Arion í áhættustýringu frá 2013. En þetta starf sem ég tók við núna snýst meira um stjórnun og stragegíska hugsun.“

Spurður hvað hann hyggist gera í sumar segir Úlfar að hann sé búinn að plana ferðir í Þjórsárdal og Landmannalaugar.

„Síðan fer ég líka á tvö fótboltamót en ég er mikill áhugamaður um fótbolta og einnig mun ég fara með konunni minni á námskeið í náttúruhlaupum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .