Í dag gefur Deloitte út sína árlegu skýrslu um fjármál knattspyrnuheimsins.  Í henni kemur fram að heildartekjur evrópskra knattspyrnuliða hafa aukist um einn milljarð evra milli ára og námu alls 14,6 milljörðum evra á tímabilinu 2007/08.

Nýir sjónvarpssamningar hafa styrkt stöðu ensku úrvalsdeildarinnar sem tekjuhæsta deild í heiminum en tekjur hennar námu 2,4 milljörðum evra og er bilið núna milli hennar og næstu deilda komið yfir 1 milljarð evra.  Þýska, spænska og ítalska deildin eru jafnar í öðru sæti með um 1,4 milljarð evra í tekjur.  Ítalska deildin er hástökkvari listans en tekjur hennar hafa aukist um 34% milli ára sem skýrist að mestu af því að Juventus snéri aftur í efstu deild á Ítalíu segir í skýrslunni.

Tekjur halda áfram að aukast spáir Deloitte

Sem tákn um ónæmi knattspyrnunnar fyrir kreppunni þá telur Deloitte að tekjur knattspyrnunnar muni halda áfram að aukast en þó ekki með sama hraða og áður.  Prófsteinninn fyrir stóru deildirnar 5 verður að ná að halda sjó í haust þegar áhangendur þurfa að endurnýja ársmiða sína fyrir tímabilið 2009/10 og endurnýjun styrktarsamninga á sér stað.  Það gefur þó góð fyrirheit að 2% aukning hefur orðið í áhorfendafjölda á nýafstöðnu tímabili.

Í skýrslunni kemur fram að liðinn þurfi einnig að viðhalda auglýsingatekjum og hinni ábatasömu starfsemi í kringum heimaleikina ásamt því að halda launum og öðrum kostnaði í skefjum.  Þýska, franska og enska deildin ásamt stærstu félögunum á Spáni hafa nú þegar tryggt sér sjónvarpssamninga til langs tíma.

Meirihluta tekjuaukningar liðanna var eytt í aukin laun leikmanna og til kaupa á leikmönnum.  Launakostnaður stóru deildanna fimm jókst um 14% milli ára og nam 4,8 milljörðum evra á tímabilinu 2007/08.