Eitthvað virðist bandaríska fréttastöðin Fox News hafa ruglast á löndum, eða í það minnsta í skráningu á myndefni, því í viðtali við Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra s.l. mánudag sýndi stöðin myndir af mótmælum frá Lettlandi þegar rifjuð eru upp mótmælin sem áttu sér stað við Alþingishúsið í lok janúar.

Fox spurði Gylfa út í ástandið hér á landi í kjölfar bankahrunsins. Þar segir Gylfi að eftir stjórnarskiptin [um mánaðarmótin jan/feb] sé átt við bankahrunið með friðsælum og lýðræðislegum hætti. Þá segir Gylfi að yfirvöldum hafi tekist að halda bankakerfinu gangangi staða ríkissjóðs sé viðráðanleg.

Í lok viðtalsins segir Gylfi að þrátt fyrir efnahagshrunið sé staða landsins góð, ríkissjóður sé vel rekinn, mikið sé um náttúruauðlindir og því sé framtíð landsins björt.

Eins og fyrr segir er lítillega fjallað um mótmælin frá því í janúar en sýndar eru myndir frá Lettlandi þar sem fólksfjöldi tekst á við lögreglu, lögreglubíl er velt og fleira í þeim dúr. Eins og Viðskiptablaðið greind frá á sínum tíma voru mikil mótmæli í Lettlandi í lok febrúar og í kjölfarið sagði forsætisráðherra landsins af sér (sjá tengda frétt hér að neðan).

Viðtalið má sjá hér.