Stjórnendur raftækjaframleiðandans Foxconn í Taívan eru að leggja drögin að því þessa dagana að reisa verksmiðjur í Bandaríkjunum. Ástæðuna segja þeir kröfur um hærri launakröfur starfsmanna í Asíu, ekki síst í Kína.

Foxconn setur saman raftækjabúnað fyrir ýmsa framleiðendur. Þekktast er það fyrir að setja saman iPhone-síma og iPad-spjaldtölvur fyrir Apple. Stjórnendur Apple voru harðlega gagnrýndir vegna þessa fyrr á árinu enda voru starfsmenn Foxxconn lágt launaðir ofan á að búa við slæman kost. Hjá Foxconn í Kína vinna 800.000 manns. Þeir setja allan tækjabúnað saman í höndunum og koma vélar lítið við sögu.

Fram kemur í umfjöllun DigiTimes af málinu að stjórnendur fyrirtækisins hafi leitað leiða til að hagræða í rekstri, m.a. með því að hefja rekstur utan Asíu. Detoit og Los Angeles koma til greina, að sögn blaðsins.

DigiTimes segir að í verksmiðju Foxconn í Bandaríkjunum sé stefnt að því að setja saman flatskjái af ýmsum stærðum og gerðum. Ólíkt öðrum verksmiðjum fyrirtækisins, s.s. í Kína, munu vélmenni og þjarkar hvers konar verða notaðir við samsetninguna enda þeir stærri um sig en smátækin.