Fræ ehf., eignarhaldsfélag í eigu Langanesbyggðar, hefur keypt 30% eignarhlut FSP hf. í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og fer nú með 60% eignarhlut í félaginu en 30% eru í eigu Þórskaupa og 10% í eigu Þórshafnar fjárfestingar að því er segir í fréttatilkynningu.

Hinn 22. desember á síðasta ári gekk Þórshöfn fjárfesting frá sölu á 90% eignarhlut sínum í Hraðfrystistöð Þórshafnar til Ísfélags Vestmannaeyja en fyrir átti Þórshöfn fjárfesting félagið að fullu. Salan var m.a. háð þeim fyrirvara að eigendur Þórshafnar fjárfestingar myndu ekki neyta forkaupsréttar að hinum seldu hlutum. Eigendur Þórshafnar fjárfestingar neyttu allir forkaupsréttar og varð því ekkert úr sölunni til Ísfélags Vestmannaeyja.

Björn Ingimarsson stjórnarformaður Fræ um kaupin: Hraðfrystistöð Þórshafnar er lykilfyrirtæki hér á þessu svæði og að mörgu leyti lífæð sveitarfélagsins. Það er því verulega mikilvægt fyrir þróun allrar byggðar á Langanesi að vel takist til um framtíðarskipulag og eignarhald á Hraðfrystistöð Þórshafnar. Við tókum þá ákvörðun að neyta okkar forkaupsréttar þegar fyrir lá að aðrir hluthafar Þórshafnar fjárfestingar ætluðu að gera slíkt hið sama og munum í framhaldinu ráða okkar ráðum í samráði við aðra hluthafa um hvernig stíga beri næstu skref. Við þökkum FSP kærlega fyrir ánægjulegt samstarf en þeir eru ekki alveg farnir frá okkur enda enn sameigendur okkar að Þórshöfn fjárfestingu.

Kjartan Broddi Bragason framkvæmdastjóri FSP um söluna í tilkynningunni: "Við fengum gott tilboð í okkar bréf í Hraðfrystistöð Þórshafnar og ákváðum að taka því tilboði. Við fórum inn í þetta verkefni á sínum tíma sem skammtímaverkefni og á forsendum heimamanna þar sem m.a. var stefnt að því að leggja drög að framtíðareignarhaldi á félaginu. Okkar verkefni er svo til lokið og látum við kyndilinn aftur í hendur heimamanna en þar var hann þegar verkefnið hófst."