Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra fái heimild, fyrir hönd ríkissjóðs, fyrir  kaupum á eignarhlutum eða til hlutafjáraukningar í fyrirtækjum á sviði orkuöflunar og orkudreifingar „í því skyni að tryggja opinbert eignarhald og endurskipulagningu á sviði orkumála," eins og segir í frumvarpinu.

Sambærileg heimild var ekki í fjárlögum þessa árs.

Eftir því sem næst verður komist er heimildin ekki veitt með nein sérstök kaup í huga en sett inn ef til þess kæmi. Sem kunnugt er leggja Vinstri græn mikla áherslu á að orkufyrirtækin verði í opinberri eigu.

Umræðan um eignarhald á orkufyrirtækjum komst aftur í hámæli í sumar þegar fréttist af áhuga kanadíska fyrirtækisins Magma Energy á því að kaupa hlut í HS Orku. Það fyrirtæki er nú að tryggja sér 43% hlut í HS Orku.