Dr. Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks sem rekur m.a. Viðskiptasmiðjuna – Hraðbraut nýrra fyrirtækja, hefur fengið styrk frá Öresund Entrepreneurship Academy til þess að búa til námskeið fyrir danska og sænska háskóla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Klak í dag.

Samkvæmt henni er námskeiðið mjög umfangsmikið og metnaðarfullt og snýst um að búa til verðmæti úr einkaleyfum sem háskólar í Danmörku og Svíþjóð eiga.

Viðskiptaháskólinn í Kaupmannahöfn (CBS) er umsjónarskóli námskeiðsins en Háskólinn í Lundi og Háskólinn í Árósum eru stuðningsaðilar. Eyþór hefur stöðu sem Associate professor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og hefur umsjón með nýsköpunar og frumkvöðlafræðum við MBA-námsdeildir skólans.   „Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt vegna þess að Öresund Entrepreneurship Academy eru regnhlífarsamtök fyrir frumkvöðlakennslu fyrir tólf háskóla á Öresundsvæðinu,“ segir Eyþór Ívar í tilkynningunni.

„Ég er þar að leiðandi ekki einungis að búa til námskeið fyrir Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn heldur er hugmyndin að bjóða upp á þetta námskeið og önnur tengd námskeið við aðra háskóla. Við erum í nánu samstarfi við Háskólann í Lundi og ég geri ráð fyrir að áfanginn verði tekinn upp þar næstum því samhliða og hann er boðinn í Kaupmannahöfn, þó með aðeins öðru sniði. Þetta er áfangi sem gengur út á að skapa aukin verðmæti úr einkaleyfum sem háskólar í Danmörku og Svíþjóð hafa komið sér upp vegna rannsókna og þróunarvinnu kennara og nemenda skólanna. Þetta eru mörg þúsund einkaleyfi. Við erum að búa til ákveðinn ramma til þess að meta þessi einkaleyfi og ferli til þess að gera annað hvort fyrirtæki eða sérleyfissamninga úr þeim. Einkaleyfishafar byggja miklar vonir við þau módel sem við höfum kynnt fyrir þeim.”