Breska verslanakeðjan Sainsbury's hefur veitt Lyons Seafoods, dótturfélagi SÍF hf. í Bretlandi, verðlaun fyrir framúrskarandi frammistöðu sem besti samstarfsaðili (Top Supplier) en fyrirtækið er helsti birgir verslanakeðjunnar í kældum skelfiskafurðum. Ole Norgaard, forstjóri Lyons Seafoods, og Ian Frostick, sölustjóri hjá félaginu, tóku á móti verðlaununum á hátíðarsamkomu í London á dögunum.

Lyons Seafoods hefur aukið sölu til Sainsbury's verslanakeðjunnar jafnt og þétt síðastliðin ár en í fyrra nam aukningin 60% milli ára. Þetta samstarf hefur orðið til þess að Sainsbury's er leiðandi verslanakeðja á Bretlandi í sölu kældra skelfiskafurða með um 42% markaðshlutdeild.

Ole Norgaard segir alltaf ánægjulegt að fá verðlaun fyrir góða frammistöðu í viðskiptum, ekki síst frá fyrirtæki eins og Sainsbury's. Hann segir verðlaunin vitna um góða frammistöðu starfsfólks Lyons Seafoods.

SÍF keypti Lyons Seafoods sumarið 2003 en félagið sérhæfir sig í fullunnum skelfiskafurðum og er með leiðandi stöðu á markaði í Bretlandi fyrir unnar rækjuafurðir. Félagið hefur fjárfest markvisst í vöruþróun og framleiðslutækjum til framleiðslu á kældum afurðum, brauðuðum skelfiskafurðum til hitunar og tilbúnum skelfiskréttum auk þess að fullvinna aðrar afurðir. Framkvæmdir við stækkun verksmiðju Lyons Seafoods í Warminster hófust á síðasta ári en áætlað er að starfsemi félagsins verði öll komin undir eitt þak haustið 2005.

Sainsbury's rekur hátt í 16 þúsund verslanir og er leiðandi á smásölumarkaði í Bretlandi.