Sena hagnaðist um tæplega 145 milljónir árið 2014 en það er mikill viðsnúningur frá fyrra ári þegar tap var á rekstrinum upp á 126 milljónir.

Starfsemi Senu spannar framleiðslu, útgáfu- og dreifingarstarfsemi á afþreyingarvöru hvort sem um ræðir áþreifanlega vöru eða dreifingu með stafrænum hætti.

Heildsala skilaði mestum tekjum eða 1,2 milljörðum af 2,7 milljarða rekstrartekjum. Þá voru tekjur af rekstri Smárabíós, Háskólabíós og Borgarbíós á Akureyri um 870 milljónir. Tekjur viðburða tvöfaldast á milli ára frá 168 milljónum upp í 330 milljónir króna en meðal annars stóð Sena fyrir tónleikum Justins Timberlake í Kórnum.

Eignir Senu námu rúmlega 1,1 milljarði króna og var handbært fé frá rekstri 143 milljónir.