Sesselía Birgisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdarstjóri þjónustu- og markaðssviðs Íslandspósts og tekur til starfa í lok sumars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti.

„Ég er mjög spennt fyrir því að taka þátt í þessu skemmtilega og krefjandi verkefni, Íslandspóstur er flott fyrirtæki sem þjónustar alla landsmenn en stendur á miklum tímamótum. Ég hlakka mikið til að taka þátt í öllum þeim stóru verkefnum sem framundan eru og taka þátt í að marka skýra stefnu sem skilar árangri,“ er haft eftir Sesselíu í tilkynningunni.

Sesselía kemur til Íslandspósts frá Advania en þar var hún forstöðumaður stafrænna miðla og markaðsmála frá árinu 2016. Hún er með tvær mastersgráður frá Háskólanum í Lundi, í stjórnun mannauðs með áherslu á þekkingarmiðlun og einnig í alþjóða markaðsfræðum og vörumerkjastjórnun. Hún bjó lengi í Svíþjóð þar sem hún var einn stofnenda og stjórnandi Red Apple Apartments.

Íslandspóstur er sem stendur í endurskipulagningarfasa en nýr forstjóri, Birgir Jónsson, tók til starfa í upphafi mánaðarins. Í liðinni viku var fækkað í framkvæmdastjórn félagsins og í gær var tilkynnt um að uppsagnir væru fyrirhugaðar í yfirbyggingu þess. Rætt er við Birgi í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

„Það er okkur sönn ánægja að fá Sesselíu til starfa þar sem að hún hefur fjölbreytta reynslu í þjónustu, sölu og markaðsmálum. Sesselía hefur verið áberandi í markaðsheiminum síðustu misseri þar sem hún hefur talað fyrir mikilvægi markaðs og þjónustumála og fléttað þau saman við hraða þróun í stafrænum heimi. Við hjá Íslandspósti erum að leggja stóraukna áherslu á þessi mál í okkar starfsemi enda er lykillinn að framtíðarárangri okkar sú að þjónusta viðskiptavini okkar sem best og nýta til þess tæknilausnir sem virka,“ er haft eftir nýjum forstjóra í tilkynningunni.