Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, sagði á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir stundu að mikilvægt væri að úttekt færi fram á peningamálastefnu Íslands frá því að krónan var sett á flot árið 2001.

„Mikilvægt er að þessi vinna geti farið af stað sem fyrst enda um viðamikið og tímafrekt verkefni að ræða. Ljóst er að ekki hefur tekist nægjanlega vel að vinna gegn verðbólgu síðustu ár og misseri þó verðbólgumarkmið sé kjölfestan í peningamálastefnunni. Þó hefur engum tekist að færa sannfærandi rök fyrir því að eitthvert annað markmið væri heppilegra að gefinni þeirri forsendu að hér sé haldið í sjálfstæða mynt," sagði Ingibjörg Sólrún.

Ingibjörg sagði jafnframt spákaupmenn í fjarlægum heimshornum hagnast á hremmingum krónunnar, og að það athæfi væfist hvorki fyrir þeim siðferðilega né fjárhagslega.

„Í fjármálaheiminum er enginn annars bróðir í leik og það er ekki spurt um heiður eða sóma heldur auð og áhrif," sagði Ingibjörg.

Evrópunefnd Alþingis tekur til starfa á þriðjudag og segist utanríkisráðherra binda miklar vonir við það starf.

„Nefndin verður hins vegar að gera sér það ljóst að aðstæður breytast nú hratt og hvorki hún né íslenskir stjórnmálamenn hafa allan heimsins tíma til að gera upp hug sinn um það hvernig þessara hagsmuna verði best gætt. "

Ræðu Ingibjargar má lesa í heild á vef Samfylkingarinnar.