Ómar Gunnar Ómarsson, löggiltur endurskoðandi er nýr hluthafi í eigendahópi hjá Enor ehf. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Undanfarin 8 ár hefur Ómar starfað á endurskoðunarsviði KPMG og Deloitte í Svíþjóð þar sem hann hefur stýrt endurskoðun meðalstórra og stórra félaga. Auk þess að sjá um menntunarmál er snúa að endurskoðun hjá Deloitte AB.

Ómar útskirfaðist með Cand oecon gráðu í endurskoðun frá Háskóla Íslands árið 2004. Hann hlaut löggildingu í endurskoðun á Íslandi árið 2009 og löggildingu í endurskoðun í Svíþjóð árið 2016.

Eiginkona Ómars er Hulda Rósa Þórarinsdóttir svæfingalæknir og eiga þau saman 2 börn.

„Það er mikill styrkur í þessum liðsauka fyrir Enor ehf. Ómar Gunnar býr yfir alþjóðlegri þekkingu og reynslu á sviði endurskoðunar sem á eftir að nýtast bæði Enor og viðskiptavinum okkar og væntum við til mikils af honum á næstu árum,“ er haft eftir Davíð Búa Halldórssyni, framkvæmdastjóra Enor, í fréttatilkynningu.

Þar segir jafnframt að höfuðstöðvar Enor séu á Akureyri en fyrirtækið er einnig með vaxandi starfsemi í Reykjavík og á Húsavík. Hjá fyrirtækinu starfa 30 starfsmenn.