Tölvuleikjaframleiðandinn Zynga, sem líklega er þekktastur fyrir Facebook leikinn Farmville, er ekki lengur sú peningaprentvél sem hann leit út fyrir að vera þegar fyrirtækið var skráð á markað í desember 2011. Félagið hefur misst nokkra mikilvæga lykilstarfsmenn, hlutabréfaverðið hrundi og nýlega greindi Zynga frá því að tap fyrirtækisins í fyrra hafi numið um 200 milljónum dala.

Á mánudaginn birtust svo fréttir af því að segja ætti upp 30 starfsmönnum Zynga og að loka ætti eða sameina skrifstofur í Baltimore, New York og Texas.

Ekki eru þó allar fréttir af fyrirtækinu slæmar. Fjárfestar hafa tekið þeirri staðreynd ágætlega að fyrirtækið er að færa sig nær því að bjóða upp á fjárhættuspil á netinu fyrir alvöru peninga. Zynga ætlar að bjóða upp á nokkra slíka leiki í Bretlandi síðar á þessu ári og þá hefur Zynga stigið fyrstu skrefin í átt að því að fá leyfi í Nevada til að reka fjárhættuspil á netinu. Í síðustu viku var Nevada fyrsta ríki Bandaríkjanna til að leyfa fjárhættuspil á netinu innan eigin landamæra - eins undarlega og það kann að hljóma.

Þetta er töluverður umsnúningur á starfsemi fyrirtækis sem skaust upp á stjörnuhimininn fyrir að bjóða fólki upp á sýndarlandbúnað á Facebook. Það sem af er ári hefur gengi hlutabréfa Zynga hækkað um 40%.